Greenwood nálgast Juventus - Gundogan orðaður við Galatasaray - Dortmund hefur ekki efni á Sancho - Mainoo fær væna launahækkun
   mið 15. maí 2024 20:59
Ívan Guðjón Baldursson
England: Amad skoraði og lagði upp í sigri gegn Newcastle
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: Getty Images
Man Utd 3 - 2 Newcastle
1-0 Kobbie Mainoo ('31)
1-1 Anthony Gordon ('49)
2-1 Amad Diallo ('57)
3-1 Rasmus Hojlund ('85)
3-2 Lewis Hall ('92)

Manchester United tók á móti Newcastle í spennandi slag í Evrópubaráttu ensku úrvalsdeildarinnar.

Amad Diallo fékk tækifæri í byrjunarliðinu hjá Rauðu djöflunum og átti hann flottan leik í kvöld, þar sem hann lagði fyrsta mark leiksins upp fyrir Kobbie Mainoo á 31. mínútu. Mainoo hélt hann væri rangstæður en kláraði færið með marki og svo kom í ljós að Kieran Trippier var alltof lengi að færa sig upp með varnarlínunni og spilaði hann réttstæðan.

Leikurinn var skemmtilegur þar sem bæði lið fengu góð færi en staðan var 1-0 í leikhlé þrátt fyrir góðar tilraunir gestanna til að jafna. Casemiro bjargaði á línu frá Dan Burn og þá vildi Newcastle fá dæmda vítaspyrnu þegar Sofyan Amrabat felldi Gordon innan vítateigs, en VAR ákvað að skerast ekki í leikinn.

Anthony Gordon jafnaði muninn í upphafi síðari hálfleiks eftir slæm mistök Amrabat sem gaf boltann frá sér í vörn. Boltinn fór til Jacob Murphy sem gaf frábæra fyrirgjöf á Gordon, sem skoraði með viðstöðulausu utanfótarskoti.

Það leið ekki á löngu þar til Amad Diallo svaraði fyrir Man Utd þegar hann skoraði með laglegu skoti eftir að boltinn barst til hans í kjölfar hornspyrnu.

Staðan var þá orðin 2-1 og blésu gestirnir frá Newcastle til sóknar en André Onana sagði nei og varði meistaralega. Newcastle klúðraði góðum færum en Rauðu djöflarnir fengu einnig frábær færi sem fóru forgörðum.

Erik ten Hag gerði þrefalda skiptingu á 82. mínútu þar sem Rasmus Höjlund og Marcus Rashford komu inn ásamt Lisandro Martinez. Það tók Höjlund aðeins tvær mínútur að hafa áhrif á leikinn, þar sem hann innsiglaði sigur Man Utd með laglegu einstaklingsframtaki á 85. mínútu.

Newcastle var þó ekki búið að gefast upp og tókst bakverðinum unga Lewis Hall að minnka muninn aftur niður í eitt mark með laglegu marki á 92. mínútu. Það dugði þó ekki til.

Lokatölur urðu 3-2 og eru Newcastle og Man Utd jöfn í sjöunda sæti með 57 stig, en Newcastle er með talsvert betri markatölu.

Newcastle heimsækir Brentford í lokaumferðinni á meðan Man Utd heimsækir Brighton. Rauðu djöflarnir verða að treysta á að Newcastle misstígi sig vilji þeir komast í Evrópukeppni í gegnum úrvalsdeildina. Takist þeim ekki að stela sjöunda sætinu þurfa þeir að sigra úrslitaleik FA bikarsins gegn Manchester City til að komast í Evrópukeppni næsta haust.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner