Allegri orðaður við Man Utd - Modric að framlengja við Real Madrid
   fös 03. maí 2024 16:35
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Spáin fyrir 2. deild kvenna: Seinni hluti (1. - 6. sæti)
Haukum er spáð efsta sæti deildarinnar.
Haukum er spáð efsta sæti deildarinnar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ana Bral er ansi góður leikmaður í þessari deild.
Ana Bral er ansi góður leikmaður í þessari deild.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Íris Grétarsdóttir er í lykilhlutverki hjá KR, efnilegur leikmaður.
Íris Grétarsdóttir er í lykilhlutverki hjá KR, efnilegur leikmaður.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Gunnar Einarsson stýrir KR-liðinu.
Gunnar Einarsson stýrir KR-liðinu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fjölni er spáð þriðja sæti.
Fjölni er spáð þriðja sæti.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Magnús Haukur Harðarson, þjálfari Fjölnis.
Magnús Haukur Harðarson, þjálfari Fjölnis.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Einherja er spáð fjórða sætinu.
Einherja er spáð fjórða sætinu.
Mynd: Einherji
Völsungi er spáð fimmta sætinu.
Völsungi er spáð fimmta sætinu.
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Úr leik á milli ÍH og Álftanes á síðasta tímabili.
Úr leik á milli ÍH og Álftanes á síðasta tímabili.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
ÍH er spáð sjötta sæti.
ÍH er spáð sjötta sæti.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Keppni í 2. deild kvenna hefst á morgun með leik KR og Vestra á Meistaravöllum. Við fengum alla þjálfara í deildinni til að skila inn spá núna stuttu fyrir mót. Þjálfarar liðanna voru beðnir að raða liðunum niður 1-12 í spá og slepptu sínu liði. Við fórum yfir liðin úr neðri hlutanum í gær og núna förum við yfir þau lið sem er spáð í efri hlutann.

Það er búið að gera breytingar á fyrirkomulaginu í 2. deild sem verður áhugavert að fylgjast með. Þrettán lið mæta til leiks og er leikin einföld umferð. Í seinni hluta mótsins er keppni skipt upp í þrjá hluta og spila efstu fimm liðin sín á milli um tvö sæti í Lengjudeildinni.

1. sæti: Haukar (136 stig)
Lokastaða í fyrra: 3. sæti í 2. deild
Haukar féllu niður í 2. deild fyrir tímabilið í fyrra en þær voru nálægt því að fara upp í annarri tilraun. Baráttan var hörð á toppnum í 2. deild í fyrra en Haukar enduðu að lokum einu stigi frá ÍA sem fór upp í Lengjudeildina. Flestar í Haukaliðinu eru uppaldar heimakonur og margar þeirra eru ungar og efnilegar. Þessar ungu stelpur fengu dýrmæta reynslu í fyrra og munu eflaust taka hana með sér áfram inn í komandi sumar. Ana Bral er eini erlendi leikmaður liðsins og hún er afar öflugur leikmaður í þessari deild. Haukar hafa litið vel út í vetur og eru til alls líklegar í sumar.

Lykilmenn: Kristín Fjóla Sigþórsdóttir, Edda Mjöll Karlsdóttir og Ana Bral.

Gaman að fylgjast með: Viktoría Sólveig Ketel Óðinsdóttir (fædd árið 2007).

Þjálfarinn segir - Hörður Bjarnar Hallmarsson
„Það er klárlega gaman að vera spáð 1. sæti. En við fengum heldur betur að kynnast því í fyrra hversu sterk þessi deild er og erum við algjörlega meðvituð um það að við þurfum að vera upp á okkar allra besta í hverjum einasta leik svo að þessi spá rætist."

„Við erum með mjög öflugan og metnaðarfullan hóp sem einkennist af sterkum leiðtogum og góðri liðsheild. Hópurinn hefur ekki breyst mikið frá því í fyrra en við höfum bætt við okkur þremur leikmönnum sem styrkja okkur gríðarlega mikið. Við leggjum meiri áherslu á það að gera þá leikmenn sem við höfum betri í fótbolta frekar en að sækja fullt af nýjum leikmönnum. Ég er mjög heppinn að fá að þjálfa þennan leikmannahóp og einnig að vinna með frábæru þjálfarateymi sem eru öll mjög mikilvægur partur af þessu liði."

„Markmiðið okkar í sumar er að taka framförum bæði sem einstaklingar og sem lið. Við viljum vera besta útgáfan af okkur sjálfum á hverri einustu æfingu og leik sem við mætum í."


2. sæti. KR (135 stig)
Lokastaða í fyrra: 9. sæti í Lengjudeildinni
KR féll úr Bestu deildinni sumarið 2022 eftir afar erfitt sumar, innan sem utan vallar. Það gekk erfiðlega að sækja stig innan vallar það sumarið og utan vallar gagnrýndu leikmenn og þjálfarar hvernig haldið var utan um liðið. Í fyrra gekk svo áfram illa þegar komið var í Lengjudeildina en KR var spáð neðsta sæti fyrir mótið og endaði að lokum í næst neðsta sæti. Eftir tvö föll í röð, þá horfir vonandi til betri tíma fyrir Vesturbæinga. Það er svo sannarlega ekki boðlegt að eins stórt félag og KR sé með kvennalið í 2. deild. Liðið er afskaplega ungt að mestu leyti en þjálfararnir í deildinni hafa trú á því að KR fari upp í sumar.

Lykilmenn: Emilía Ingvadóttir, Íris Grétarsdóttir og Ólöf Freyja Þorvaldsdóttir.

Gaman að fylgjast með: Rakel Grétarsdóttir.

Þjálfarinn segir - Gunnar Einarsson
„Þökkum fyrir trúnna á okkar liði, tökum þessari spá opnum örmum. Það er okkar að sýna það hvert við stefnum innan sem utan vallar."

„Okkar markmið sem lið og félag eru skýr."

3. sæti: Fjölnir (119 stig)
Lokastaða í fyrra: 4. sæti í 2. deild
Fjölniskonum var spáð efsta sæti deildarinnar í fyrra en þær enduðu að lokum í fjórða sæti eftir hörkubaráttu á toppnum. Það voru jákvæð teikn á lofti í fyrra en það er bara svipað hægt að segja um öll þessi þrjú félög sem eru á toppnum í þessari spá. Þetta eru stór félag sem eiga að vera ofar en í 2. deild. Magnús Haukur Harðarson tók við Fjölni eftir að liðið féll sumarið 2022 og má segja að það hafi verið lagður ágætis grunnur í fyrra. Í ár á að byggja ofan á þennan grunn frekar og verður fróðlegt að fylgjast með toppbaráttunni svo sannarlega. Fjölnir missti Öldu Ólafsdóttur í vetur en hún skoraði 33 mörk í fyrra. Hvernig leysir liðið það?

Lykilmenn: Anna María Bergþórsdóttir, Eva María Smáradóttir og Júlía Katrín Baldvinsdóttir.

Gaman að fylgjast með: María Sól Magnúsdóttir (fædd árið 2008).

Þjálfarinn segir - Magnús Haukur Harðarson
„Spáin er sanngjörn en við höfum spilað við bæði Hauka og KR á undirbúningstímabilinu og tapað þannig að þriðja sæti er eðlileg spá."

„Liðið er á töluvert betri stað en á sama tíma í fyrra og er kjarni liðsins sá sami og á síðasta tímabili mínus Alda Ólafsdóttir. Að geta byggt ofan á kjarnann eru forréttindi og hafa nýir leikmenn komið inn með miklum krafti og bætt liðið verulega. Fyrir mitt leyti erum við besta fóboltaliðið í þessari deild en hún er brögðótt og er enginn leikur auðveldur eins og sýndi sig á síðasta tímabili."

„Okkar markmið er einfalt og er það að spila í Lengjudeildinni 2025. 112 fer vonandi að vakna af værum blundi og mætir vel á völlinn og styður við bakið á okkur því þessar stelpur eiga það svo sannarlega skilið."


4. sæti: Einherji (112 stig)
Lokastaða í fyrra: 5. sæti í 2. deild
Það er alltaf gaman að fara á Vopnafjörð en í fjórða sæti í þessari spá er Einherji frá Vopnafirði. Það er aðdáunarvert að það takist að halda úti fótboltaliði í eins litlu bæjarfélagi, en Einherja hefur tekist að gera það núna og þeim hefur tekist að búa til flott fótboltalið. Í fyrra var Einherji að berast í toppbaráttunni og endaði að lokum með jafnmörg stig og Fjölnir í fimmta sæti. Í liði Einherja eru stelur af svæðinu í bland við öfluga erlenda leikmenn sem styrkja liðið mikið. Það verður spennandi að sjá hvort Vopnfirðingar nái að fylgja eftir góðu tímabili frá því í fyrra.

Lykilmenn: Margarita Panova, Coni Adelina Ion og Oddný Karólín Hafsteinsdóttir.

Gaman að fylgjast með: Amanda Lind Elmarsdóttir og Karólína Dröfn Jónsdóttir (fæddar árið 2005).

Þjálfarinn segir - Víglundur Páll Einarsson
„Alltaf skemmtilegt þegar verið er að spá í spilinn og öll umfjöllun jákvæð fyrir deildina. Okkar markmið eru fyrst og fremst að bæta okkur sem lið og bæta leik okkar frá því í fyrra. Við teljum okkur á góðum degi geta veit öllum liðum i deildinni verðuga samkeppni. Eg held að deildinn verði virkilega skemmtileg og verði jöfn, með mikið af óvæntum úrslitum."

5. sæti: Völsungur (102 stig)
Lokastaða í fyrra: 7. sæti í 2. deild
Það er ákveðinn rígur á milli Einherja og Völsungs í þessari deild, en það munar einu sæti á þessum tveimur liðum í spánni. Völsungum er spáð fimmta sæti og verða þannig síðasta liðið inn í efsta hluta deildarinnar þegar henni verður skipt eftir einfalda umferð. Völsungur lék ágætlega á síðasta tímabili og endaði um miðja deild Völsungur var bara með einn erlendan leikmann í liðinu sínu í fyrra og þær virðast ætla að treysta áfram á þennan íslenska kjarna sem hefur myndast, sem er virkilega gaman að sjá. Þær gáfu FHL hörkuleik í Mjólkurbikarnum á dögunum og það gefur góð fyrirheit fyrir sumarið á Húsavík.

Lykilmenn: Árdís Rún Þráinsdóttir, Ísabella Júlía Óskarsdóttir og Hildur Anna Brynjarsdóttir.

Gaman að fylgjast með: Halla Bríet Kristjánsdóttir (fædd árið 2008).

Þjálfarinn segir - Aðalsteinn Jóhann Friðriksson
„Það er gaman að spá og velta fyrir sér komandi tímabili. Við erum að fara inn í fjórða árið í röð í þessari deild með nýju fyrirkomulagi og nýrri úrslitakeppni. Það að vera spáð 5.sæti þýðir að við spilum við bestu liðin í lokin og það hljómar mjög vel fyrir okkur svo við kvörtum ekki. Auðvitað væri skemmtilegra að enda ofar svo við skulum sjá til hvað gerist."

„Liðið okkar er ekki alveg fullmótað og því erfitt að spá fyrir um okkur fyrir sumarið. En þeir leikmenn sem byrja fyrsta leik verða tilbúnar í slaginn og rúmlega það, ég lofa því."

6. sæti: ÍH (92 stig)
Lokastaða í fyrra: 6. sæti í 2. deild
ÍH átti virkilega fínt tímabil í fyrra en liðið er enn tiltölulega nýtt í kvennaboltanum. Í liðinu eru í raun nánast eingöngu ungar stelpur úr FH sem eru að fá dýrmæta og góða reynslu af því að spila í meistaraflokki. Í þessu ÍH liði eru margar efnilegar stelpur sem eiga möguleika á því að verða þekkt nöfn í fótboltanum í framtíðinni og er gaman að sjá þær taka sín fyrstu skref í þessu verkefni. Ein þeirra er til dæmis Hafrún Birna Helgadóttir, sem er fædd árið 2009. Hún skoraði á móti bæði Spáni og Þýskalandi með U15 ára landsliðinu í haust og hún mun eflaust hrella marga varnarmenn í 2. deild með frábærri boltafærni sinni. ÍH hefur litið vel út í vetur og vann meðal annars 10-0 sigur gegn Njarðvík í Mjólkurbikarnum núna stuttu fyrir mót.

Lykilmenn: Rakel Eva Bjarnadóttir, Aldís Tinna Traustadóttir og Anna Rakel Snorradóttir.

Gaman að fylgjast með: Hafrún Birna Helgadóttir (fædd árið 2009).

Þjálfarinn segir - Brynjar Sigþórsson
„Eðlileg spá þar sem við erum með yngsta lið deildarinnar. En eins og í fyrra eru virkilega spennandi leikmenn sem munu spila með liðinu ekkert lið í deildinni er með fleiri yngri landsliðskonur. Markmiðið er það sama og í fyrra gefa ungum og efnilegum leikmönnum tækifæri til að stíga sín fyrstu skref í fullorðins bolta og öðlast mikilvæga reynslu. Sex leikmenn sem spiluðu með ÍH í fyrra hafa tekið þátt í fyrstu tveimur leikjunum í Bestu deild kvenna með FH það sem af er þessu tímabili."

Svona er fyrstu leikirnir:
laugardagur 4. maí
14:00 KR-Vestri (KR-völlur)

fimmtudagur 9. maí
12:30 Augnablik-Vestri (Fífan)
19:15 Haukar-Fjölnir (BIRTU völlurinn)

laugardagur 11. maí
14:00 Sindri-Smári (Jökulfellsvöllurinn)
14:00 KR-Einherji (Meistaravellir)
16:00 ÍH-Dalvík/Reynir (Skessan)

sunnudagur 12. maí
14:00 Völsungur-Álftanes (PCC völlurinn Húsavík)

mánudagur 13. maí
19:15 KH-Augnablik (Valsvöllur)
Athugasemdir
banner
banner
banner