Allegri orðaður við Man Utd - Modric að framlengja við Real Madrid
banner
   fös 03. maí 2024 15:25
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Spáin fyrir 3. deild: Seinni hluti (1. - 6. sæti)
Kára er spáð efsta sæti deildarinnar.
Kára er spáð efsta sæti deildarinnar.
Mynd: Kári
Úr leik hjá Kára í vetur.
Úr leik hjá Kára í vetur.
Mynd: Helgi Þór Gunnarsson
Augnablik er spáð öðru sæti.
Augnablik er spáð öðru sæti.
Mynd: Augnablik
Arnar Laufdal Arnarsson.
Arnar Laufdal Arnarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sveinn Þór Steingrímsson, þjálfari Víðis, eftir sigur í Fótbolta.net bikarnum í fyrra.
Sveinn Þór Steingrímsson, þjálfari Víðis, eftir sigur í Fótbolta.net bikarnum í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Freyþór Hrafn er lykilmaður í Árbæ.
Freyþór Hrafn er lykilmaður í Árbæ.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Baldvin Már Borgarsson er nýr þjálfari Árbæjar.
Baldvin Már Borgarsson er nýr þjálfari Árbæjar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Adam Örn Guðmundsson er lykilmaður í liði Magna.
Adam Örn Guðmundsson er lykilmaður í liði Magna.
Mynd: Magni
Orri Fannar Þórisson, hinn íslenski Will Still.
Orri Fannar Þórisson, hinn íslenski Will Still.
Mynd: KV
Síðustu ár hafa ekki verið góð fyrir KV.
Síðustu ár hafa ekki verið góð fyrir KV.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Keppni í 3. deild karla hefst í kvöld með tveimur leikjum. Við fengum alla þjálfara í deildinni til að skila inn spá núna stuttu fyrir mót. Þeir voru beðnir að raða liðunum niður 1-11 í spá og slepptu sínu liði. Við fórum í gær yfir liðin í neðri hlutanum en núna förum við yfir liðin í efri hlutanum í spánni.

Það var ótrúlegt jafnræði með þremur efstu liðunum í spánni og má búast við jafnri og skemmtilegri deild í sumar.

1. sæti: Kári (109 stig)
Lokastaða í fyrra: 5. sæti í 3. deild
Káramönnum frá Akranesi er spáð efsta sæti deildarinnar og hafa aðrir þjálfarar í deildinni trú á því að þeir muni bera sigur úr býtum í sumar. Káraliðið samanstendur af Skagamönnum, yngri leikmönnum og svo aðeins eldri líka. Nokkrir leikmenn hafa komið heim í vetur sem munu styrkja liðið vel, þar á meðal allir lykilmennirnir sem eru nefndir hér fyrir neðan. Það hefur gengið vel hjá Kára í vetur og komust þeir í undanúrslitin í B-deild Lengjubikarsins. Voru þeir eina liðið úr 3. deild sem komst þangað. Hektor Bergmann Garðarsson, sonur Garðars Gunnlaugssonar, skoraði sex mörk í fimm leikjum í riðlinum í Lengjubikarnum og er hann klárlega leikmaður til að fylgjast með í sumar en hann er fæddur árið 2005.

Lykilmenn: Oskar Wasilewski, Mikael Hrafn Helgason og Þór Llorens Þórðarson.

Fylgist með: Hektor Bergmann Garðarsson (fæddur árið 2005).

Þjálfarinn segir - Andri Júlíusson
„Það kemur mér svo sem ekkert á óvart að okkur sé spáð fyrsta sætinu, veturinn hefur gengið mjög vel og náð mikið af góðum frammistöðum og úrslitum í æfingaleikjum og lengjubikar. En svo byrjar allt annað mót á föstudaginn og þá eru liðin í kringum okkur væntanlega tilbúin með sín lið, bæði búin að styrkja sig og útlendingar komnir til landsins. Við Káramenn erum búnir að æfa vel, breyttum aðeins frá því í fyrra þar sem lítill en þéttur hópur og góðir leikmenn á góðum aldri æfðu með 2. flokks strákum með því markmiði að styrkja þá og bæta formið á leikmönnum. Það gekk mjög vel og þessi tveir hópar ná vel saman. Samstarfið við ÍA er mjög mikilvægt og það hefur styrkt okkur mikið. En við vitum líka að Íslandsmótið verður erfitt og mörg góð lið þar. Fyrir okkur snýst þetta hins vegar um að fækka slöku leikjunum frá því í fyrra, þá gátum við unnið öll liðin en líka tapað fyrir öllum. Okkur hlakkar mikið til sumarsins og höldum áfram að hlúa að ungu Skagastrákunum okkar í bland við að hjálpa þeim eldri að komast á hærra level og það hjálpar Akranesi ef Kári yrði í 2. Deildinni á næsta ári."

2. sæti: Augnablik (108 stig)
Lokastaða í fyrra: 6. sæti í 3. deild
Það vekur auðvitað athygli að liðunum sem er spáð efstu tveimur sætunum í ár voru bæði um miðja deild í fyrra. Augnablik er með virkilega skemmtilegt verkefni í gangi sem snýr að því að leikmenn sem komast ekki að í Breiðabliki, þeir fái annað tækifæri til að koma saman og spila fótbolta á góðu stigi og með góðum hópi. Leikmannahópur Augnabliks er gríðarlega samheldinn en gildi félagsins eru gleði, virðing og þakklæti. Augnablik hefur litið vel út á undirbúningstímabilinu, voru í öðru sæti í sínum riðli í Lengjubikarnum og gáfu Stjörnunni úr Bestu deildinni erfiðan leik í Mjólkurbikarnum. #éghefekkitíma

Lykilmenn: Arnar Laufdal Arnarsson, Darri Bergmann Gylfason og Eysteinn Þorri Björgvinsson.

Fylgist með: Jónþór Atli Ingólfsson (fæddur árið 2005).

Þjálfarinn segir - Hrannar Bogi Jónsson
„Spáin kemur okkur lítið á óvart svona miðað við hvernig undirbúningstímabilið hefur spilast út frá úrslitum en við erum mjög meðvitaðir um að það helsta sem við drögum frá svona undirbúningstímabili er sjálfstraust og trú á eigin getu. Markmiðin eru að reyna að ná að hámarka okkar framlag og orkustig á hverri einustu æfingu og setja það yfir í leikina, fókusa á það sem við getum stjórnað og þá þætti leiksins. Þroskast sem lið og sem einstaklingar. Ef við gerum það, þá erum við að gera allt sem í okkar valdi stendur til að stíga næsta skref."

3. sæti: Víðir Garði (107 stig)
Lokastaða í fyrra: 4. sæti í 3. deild
Í þriðja sæti í spánni eru fyrstu Fótbolta.net bikarmeistararnir í Víði Garði. Ef spáin rætist þá rétt missa þeir af því að komast upp í 2. deildina. Víðismönnum var spáð efsta sæti 3. deildar fyrir síðustu leiktíð en þeir náðu ekki alveg að standast þær væntingar í deildinni og enduðu að lokum sex stigum frá efsta sætinu og fjórum stigum frá efsta sæti. Það voru vonbrigði en Víðir er núna á leið inn í sitt fjórða tímabil í röð í 3. deild. Þar vilja þeir ekki vera mikið lengur, þeir horfa upp.

Lykilmenn: Joaquin Ketlun, Paolo Gratton og David Toro Jimenez.

Fylgist með: Cristovao Martins (fæddur 2003)

Þjálfarinn segir - Sveinn Þór Steingrímsson
„Spáin kemur okkur ekki á óvart. Vorum í toppbaráttu í fyrra og búið að ganga nokkuð vel á undirbúningstímabilinu. Það hafa orðið þó nokkrar breytingar á liðinu frá því í fyrra en við náðum samt að halda í vissan kjarna frá því liði. Við þann kjarna erum við búnir að bæta við sterkum leikmönnum fyrir þetta tímabil."

„Deildin verður sterk og á ég von á hörkuleikjum í hverri umferð. Við stefnum hátt og ætlum að gefa allt í þetta og njóta þess í botn í leiðinni."

4. sæti: Árbær (89 stig)
Lokastaða í fyrra: 3. sæti í 3. deild
Árbæingar voru nýliðar í 3. deild í fyrra en þeir komu nokkuð mikið á óvart og voru bara í baráttu um það að komast beint upp í 2. deild. Árbær er tiltölulega nýtt félag sem var bara stofnað árið 2021. Eftir einungis eitt keppnistímabil var liðið komið upp í 3. deild. „FC Árbær er hugmynd sem upprunalega spratt upp meðal nokkra vina úr Árbænum áður en liðið var stofnað árið 2021... FC Árbær stefnir á stóra hluti á komandi árum. Vegferðin er einungis að byrja," segir á heimasíðu félagsins. Árbæingar eru komnir með nýjan þjálfara en Baldvin Már Borgarsson tók við liðinu í vetur. Hann er með reynslu af því að koma liði upp úr þessari deild en hann var áður aðstoðarþjálfari Ægis. Árbæingar munu spila á nýjum heimavelli í sumar en þeir flytja sig yfir á Leiknisvöll eftir að áframhaldandi samningar náðust ekki við Fylki.

Lykilmenn: Freyþór Hrafn Harðarson, Ragnar Páll Sigurðsson og Eyþór Ólafsson.

Fylgist með: Gunnar Leó Gíslason (fæddur árið 2003)

Þjálfarinn segir - Baldvin Már Borgarsson
„Ekki óvænt spá, það eru mörg lið búin að styrkja sig mikið og ætla sér stóra hluti í sumar. Það er engin undantekning hjá okkur þar sem markmiðið er skýrt: Við ætlum upp, eða við ætlum okkur eiginlega bara að vinna deildina."

5. sæti: Magni (80 stig)
Lokastaða í fyrra: 7. sæti í 3. deild
Það er nú ekki rosalega langt síðan Magni var að bjarga sér á ótrúlegan hátt í Lengjudeildinni og var stemningin á Grenivík þá gríðarleg á einum flottasta fótboltavelli landsins. Núna eru Grenvíkingar á leið inn í sitt annað tímabil í röð í 3. deild en síðasta tímabil var ekki sérlega gott - eiginlega bara alls ekki - og endaði liðið bara um miðja deild. Liðið samanstendur mest af gömlu Þórsurum og KA-mönnum, og virðist vera góð blanda af eldri og yngri leikmönnum í hópnum. Magni er klárlega ekki lið sem vill festast í þessari deild og þeir hljóta að horfa í það að reyna að komast upp í sumar eftir vonbrigðin í fyrra.

Lykilmenn: Adam Örn Guðmundsson, Alexander Ívan Bjarnason og Viktor Már Heiðarsson.

Fylgist með: Sigurður Brynjar Þórisson (fæddur árið 2004).

Þjálfarinn segir - Óskar Bragason
„Eðlileg spá sem kemur mér ekkert á óvart þar sem við höfum ekki séð neitt af þeim liðum sem eru með okkur í deild og þau ekki okkur. Við þekkjum því lítið til styrkleika annara liða í deildinni, en ætlum okkur klárlega að berjast fyrir öllum þeim stigum sem eru í boði."

6. sæti: KV (50 stig)
Lokastaða í fyrra: 12. sæti í Lengjudeildinni
Það hefur ekki verið mikið gott að frétta hjá KV á síðustu árum. Það gekk gríðarlega vel með Sigurvin Ólafsson í brúnni og komst liðið alla leið upp í Lengjudeildina á skömmum tíma. Árið 2022 féll KV úr Lengjudeildinni með yfirburðum og svo féll liðið aftur ári síðar úr 2. deild. Síðasta tímabil var hörmulegt hjá KV og náðu Vesturbæingar aðeins í níu stig í 2. deild síðasta sumar. Allflestir leikmenn KV eru með tengingu við KR og Vesturbæinn og þeir ættu að geta byggt eitthvað upp aftur ef haldið er rétt á spilunum. Orri Fannar Þórisson tók við KV í vetur en hann hefur vakið mikla athygli og er kallaður hinn íslenski Will Still. Hann þjálfaði lið Kríu á síðasta tímabili og kom liðinu upp úr 5. deildinni. Það verður spennandi að sjá hvað sá efnilegi þjálfari gerir í Vesturbænum.

Lykilmenn: Askur Jóhannsson, Einar Már Þórisson og Vilhelm Bjarki Viðarsson.

Fylgist með: Freyr Þrastarson (fæddur árið 2004).

Þjálfarinn segir - Orri Fannar Þórisson
„Þegar spárnar fara að birtast veit maður að sumarið er að koma og það er uppáhaldstími okkar í Vesturbænum. Hópurinn er hrikalega spenntur að sýna hvað hann getur eftir tvö strembin tímabil. Mér finnst við vera með frábæra leikmenn og það er undir mér komið að ná því besta úr þeim. Hópurinn er góð blanda af reynslumiklum leikmönnum sem hafa spilað lengi með KV og ungum Vesturbæingum sem geta allir komið á óvart, þroskast með liðinu í sumar og vonandi fylgt því í efri deildir næstu árin."

Svona er fyrsta umferðin:
föstudagur 3. maí
19:15 Augnablik-Vængir Júpiters (Fífan)
19:15 Kári-Elliði (Akraneshöllin)

laugardagur 4. maí
12:00 Árbær-Víðir (Domusnovavöllurinn)
16:00 ÍH-KV (Skessan)
16:00 Sindri-KFK (Jökulfellsvöllurinn)
17:15 Magni-Hvíti riddarinn (Boginn)
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner