Allegri orðaður við Man Utd - Modric að framlengja við Real Madrid
banner
   fös 03. maí 2024 20:34
Jóhann Þór Hólmgrímsson
Ísak innsiglaði sigur Dusseldorf - Willem II upp í efstu deild
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Rúnar Þór og WIllem II hafa tryggt sér sæti í efstu deild í Hollandi
Rúnar Þór og WIllem II hafa tryggt sér sæti í efstu deild í Hollandi
Mynd: Willem II

Ísak Bergmann Jóhannesson innsiglaði mikilvægan sigur Dusseldorf í næst efstu deild í Þýskalandi í kvöld.


Dusseldorf lagði Nurnberg 3-1 en Ísak kom inn á sem varamaður og skoraði þriðja mark liðsins. Dusseldorf er í 3. sæti deildarinnar með 59 stig, fjórum stigum á undan Hamburg þegar tvær umferðir eru eftir en liðið í 3. sæti spilar við liðið í þriðja neðsta sæti í efstu deild um sæti í Bundesligunni.

Veikar vonir AGF um að komast í Evrópukeppni á næstu leiktíð urðu nánast að engu í kvöld þegar liðið tapaði 3-1 gegn Nordsjælland. Mikael Neville Anderson, leikmaður AGF, kom inn á sem varamaður snemma í síðari hálfleik.

Ágúst Eðvald Hlynsson skoraði mark AB Kaupmannahafnar þegar liðið gerði 1-1 jafntefli gegn Middlefart í þriðju efstu deild í Danmörku.

Willum Þór Willumsson lék allan leikinn í markalausu jafntefli Go Ahead Eagles gegn Sittard í efstu deild í Hollandi. Go Ahead Eagles fór því langt með að tryggja sér þátttökurétt í Sambandsdeildinni á næstu leiktíð.

Willem II hefur tryggt sér sæti í efstu deild en er með eins stigs forystu í baráttunni um titilinn fyrir lokaumferðina. Rúnar Þór Sigurgeirsson sat allan tímann á varamannabekknum þegar liðið gerði 1-1 jafntefli gegn Dordrecht í kvöld.

Elías Már Ómarsson lék rúman klukkutíma þegar NAC Breda gerði 2-2 jafntefli gegn Den Haag. NAC Breda var 2-0 undir þegar Elías fór af velli. NAC Breda er í harðri baráttu um umspilssæti fyrir lokaumferðina.

Jón Daði Böðvarsson var ekki í leikmannahópi Bolton þegar liðið vann 3-1 sigur á Barnsley í fyrri leik liðanna í umspili um sæti í Championship deildinni á næstu leiktíð.

Þá var Davíð Kristján Ólafsson í byrjunarliði Cracovia þegar liðið vann öruggan 5-0 sigur gegn Gornik Zabrze í efstu deild í Póllandi. Cracovia er í 12. sæti með 36 stig eftir 31 leik.


Athugasemdir
banner
banner